144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:32]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Menn velta fyrir sér hvað skýri þessa forgangsröðun stjórnarmeirihlutans. Hún kemur mér sannast sagna ekkert á óvart. Eina ferðina enn veitir þessi ríkisstjórn og sá stjórnarmeirihluti sem hún styðst við á Alþingi okkur innsýn í sálarlíf sitt. Hún hefur sýnt að í þremur málaflokkum er hún tilbúin að leggja allt undir, þegar létta þarf sköttum af stórútgerðinni, af stóreignafólki og þegar greiða á götu stórvirkjana í landinu, og það er það sem hún er að fást við núna.

Við aðstæður þegar þingið fer í hægagang eins og nú er að gerast er venjan að kalla þingflokksformenn saman til fundar. Ég legg til að hæstv. forseti hafi annan hátt á núna, hann kalli til fundar við sig formenn stjórnarflokkanna, þá hæstv. ráðherra Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Bjarna Benediktsson, (Forseti hringir.) og leiði þeim fyrir sjónir að svona vinnubrögð ganga ekki upp. Alþingi mun aldrei láta bjóða sér þetta.