144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Vinna við rammaáætlun hefur staðið yfir í meira en 20 ár og að þeirri vinnu hafa komið sérfræðingar, leikmenn og stjórnmálamenn svo hundruðum skiptir. Andi laganna sem samþykkt voru hér 2011 var í stíl við þá vinnu sem unnin hefur verið í málinu, að leita eftir sátt á milli þeirra sem vilja nýta og hinna sem vilja vernda og reyna að finna út úr því hvernig væri hægt að lenda málum í stað þess að vera með stanslausar deilur í hvert skipti sem orðuð er virkjun eða talað um að vernda svæði. Hv. þm. Jón Gunnarsson kom hér upp áðan og benti á stjórnmálamann og skoðun hans og vildi meina að það væri til marks um firringu stjórnarandstöðunnar. Hv. þm. Jón Gunnarsson skilur ekki anda rammaáætlunar og það er mikill vandi, virðulegi forseti, og er enn ein ástæða til þess að taka málið af dagskránni.