144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:39]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Aðeins um þessa lagalegu óvissu, það hefur verið farið vel yfir það hér en í grundvallaratriðum erum við ekkert að gera annað en það sem var gert á síðasta kjörtímabili. Við erum að breyta tillögum sem komu frá ráðgefandi nefnd ráðherra í þinginu. (Gripið fram í.) Það er kveðið á um það í þessum lögum hvernig ráðherra getur farið með þær breytingar. Það er ekki kveðið á um það í lögum hver málsmeðferð á Alþingi skuli vera, en varla hefur það átt að vera stimpilpúði fyrir framkvæmdarvaldið í þessu. Það getur varla verið að það hafi verið meining löggjafans.

Svo langar mig aðeins að koma að því, virðulegi forseti, að ég sagði í ræðu minni í gær að þó að hv. þingmenn kysu að vera með persónulegt skítkast í minn garð tæki ég það ekki nærri mér, mér væri það að meinalausu. En það er kannski ekki alveg svo þegar hv. þingmaður, formaður Samfylkingarinnar, kemur hér upp og sakar mig um að hafa verið með kvenfyrirlitningu í þessu máli. (KaJúl: Þú varst það.) Þá finnst mér of langt gengið, að segja að ég hafi verið með einhverja kvenfyrirlitningu. Hér tekur hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, undir það. Þessi málflutningur sem hér er ástundaður í þessu máli er kannski í samræmi við hin nýju stjórnmál sem þessir flokkar boða. Það er (Forseti hringir.) hægt að ganga of langt og ég ber af mér allar sakir um að ég hafi sýnt hér einhverja kvenfyrirlitningu. Mér finnst þetta ósmekklegt og þingmönnunum ekki samboðið.