144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Er það ekki hlutverk okkar sem hérna sitjum að reyna að komast að samkomulagi um það með hvaða hætti eigi að ljúka þinginu í vor á þokkalegum tíma? Ég veit ekki betur en að stjórnarandstaðan hafi lýst því yfir, þar á meðal ég, að hún sé reiðubúin að greiða fyrir þeim frumvörpum sem hæstv. ríkisstjórn telur þörf á að leggja fram til að hægt sé að ljúka kjarasamningum. Ég hef fyrir mína parta lýst því yfir að ég telji að stjórnarandstaðan eigi eftir föngum að reyna að koma til liðs við ríkisstjórnina varðandi það að afgreiða stöðugleikaskatt ef það er nauðsynlegt til að hægt sé að ráðast í afnám gjaldeyrishafta. Í þessu tiltekna máli eru menn að deila um töluvert djúptækt átakamál, en er nokkur vandi að leysa það líka? Er ekki hægt að gera það með því að fara að hinni upphaflegu tillögu hæstv. umhverfisráðherra sem hún ítrekaði bæði hér og í fréttum í gær, afgreiða tillöguna sem kom fram upphaflega, láta hitt bíða fram á haustið (Forseti hringir.) og skoða málið þar á milli? Hér var sagt í gær (Forseti hringir.) að það væri skammt þangað til niðurstaða kæmi. Er það ekki einfaldasta leiðin?