144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:47]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mér finnst kannski ekki alveg rétt að bera kvenfyrirlitningu upp á hv. þm. Jón Gunnarsson. Hann deildi fyrirlitningu sinni nokkuð jafnt á milli kynja hér í gær þegar hann talaði um [Hlátur í þingsal.] væl almennt.

Hv. þingmaður, formaður atvinnuveganefndar, hefur sagt að hann hafi bara tekið á sig verkefnið það sem út af stóð í verkefnisstjórninni, að það höfum við bara græjað í atvinnuveganefnd. Ég vil segja það hér í pontu en ekki bara á nefndafundum Alþingis að ég hef af því miklar áhyggjur að við, þótt ágætir nefndarmenn í atvinnuveganefnd séum, höfum enga þekkingu til að meta hvaða jarðfræðilegu áhrif virkjun í Hagavatni hefur. Á þetta benti ég, en það var ekkert mikið hlustað (Forseti hringir.) á það. Það skipti ekki máli. Hér eru lapsusar í vinnu nefndar, í vinnu okkar hérna inni, og ég vil að það komi fram að við höfum aldrei getað staðið okkur eins og verkefnisstjórn í rammaáætlun.