144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

störf þingsins.

[16:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Út af þessu makrílmáli var ráðherra auðvitað ákveðinn vandi á höndum, sérstaklega í ljósi þess hversu illa því var komið eftir síðustu ríkisstjórn sem setti í raun á ákveðna skiptingu veiðiheimilda án þess að hafa fyrir því lagastoð og fór þannig að í bága við þau lög sem um þetta gilda, hvort sem miðað er við úthafsveiðilögin eða fiskveiðilögin. Ráðherra er að reyna að feta þarna nýja leið sem hann vonast til að geti leitt til frekari sátta um málið og úthlutar þá til skemmri tíma, sex ára, byggt á veiðireynslu undanfarinna ára. Við höfum síðan upplifað viðbrögðin frá hagsmunaaðilum, hvort sem þar er um að ræða fulltrúa smábátaeigenda eða stærri útgerða, og í þeirri undirskriftasöfnun sem er í gangi í samfélaginu.

Ráðherra hefur komið inn á það í viðtölum við fjölmiðla að mikilvægt sé að reyna að leita sátta í málinu. Eins og við vitum öll er það það sem við stefnum að í þessum fiskveiðistjórnarmálum þó að vegurinn hafi reynst erfiður. Það er verkefni okkar í atvinnuveganefnd, þar sem hv. þm. Kristján L. Möller hefur setið með mér marga fundi um þetta mál, að sjá hvort við getum ekki komist að einhverri niðurstöðu í sátt við ráðherra og aðra sem geti þá til skemmri tíma leitt til niðurstöðu sem við getum unnið með áfram á meðan við leitum að víðtækari sátt um málin. Hvernig því verður best (Forseti hringir.) fyrir komið get ég ekki kveðið upp úr um á þessari stundu, en tek bara undir (Forseti hringir.) og er sammála ráðherranum um að leita beri einhverra leiða.