144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

störf þingsins.

[16:07]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða magn- og verðtolla á matvæli. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir tók málið hér upp í vikunni við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ég ætla að víkja að þeirri spurningu sem snýr að athugun á því að breyta hér magntollum og verðtollum sem lagðir eru á innflutt matvæli. Almennt skekkja tollar hagræði utanríkisviðskipta þar sem áhrif tolla á neytendur birtast fyrst og fremst í hærra vöruverði.

Hv. þm Jón Þór Ólafsson tók neytendavinkilinn á málið í ræðu sinni og vitnaði meðal annars í skýrslu Viðskiptaráðs og þá óskilvirkni sem slíkir tollar skapa bæði fyrir neytendur og framleiðendur. Dæmi úr samantekt Viðskiptaráðs sýnir að grænmeti og ávextir, sem ekki njóta tollverndar, eru 12% ódýrari en annars staðar á Norðurlöndum svo dæmi um samanburðarlönd séu tekin, en ostar sem njóta tollverndar eru 38% dýrari og kjúklingur 59% dýrari. Fullyrt er að hér megi afnema eða lækka tolla án þess að raska samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda, sem mundi auka kaupmátt heimila verulega. Reynslan af afnámi tolla á grænmeti 2002, þar sem verð til neytenda lækkaði verulega, sýnir að þetta er hægt. Viðskiptaráð fullyrðir að lækka megi matvælaverð á Íslandi um 6% sem mundi jafngilda tæplega 80 þús. kr. lækkun matarútgjalda á hverja fjölskyldu á ári.

Hæstv. ráðherra viðurkenndi að kerfið er um margt ógagnsætt og flókið og ég tek því undir með hæstv. ráðherra að mikilvægt sé að endurskoða kerfið með áherslu á sérstöðu íslenskrar matvælaframleiðslu en ekki síður (Forseti hringir.) með sjónarmið neytenda að leiðarljósi.