144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

störf þingsins.

[16:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Sumir hafa velt því fyrir sér þegar þeir hafa hlustað hér á málflutning talsmanna ríkisstjórnarinnar fyrir rammaáætlun hvort menn hafi jafnvel lent í tímavél og skutlast aftur á sjöunda eða áttunda áratug síðustu aldar í rökstuðningi sínum fyrir gömlu stóriðjustefnunni. Það er von að spurt sé. Ef við lítum á þetta í þjóðhagslegu samhengi í dag, og ég fór að glugga í tölur í þeim efnum, er það þannig, þó að það hafi farið fram hjá stjórnarliðinu eða að minnsta kosti hv. Jóni Gunnarssyni, að ferðaþjónusta og samgöngur eru orðin langstærsta gjaldeyrisatvinnugrein þjóðarinnar. Við getum áætlað að tekjur af ferðaþjónustu verði um 320–350 milljarðar kr. á þessu ári. Áætlað er að um 80% af þeirri veltu verði eftir í íslenska hagkerfinu, þannig að ferðaþjónustan skilur eftir 260–270 milljarða kr. nettó í íslenska hagkerfinu.

Númer tvö er sjávarútvegurinn með um 270 milljarða gjaldeyristekjur brúttó á síðasta ári og með svipað endurheimtuhlutfall fyrir íslenska hagkerfið, þ.e. um 80%. Það þýðir að sjávarútvegurinn skilur eftir 215–220 milljarða kr. í nettó gjaldeyri.

Númer 3 kemur álbræðslan eða stóriðjan með 227 milljarða gjaldeyristekjur á síðasta ári en aðeins um 35% af því verða eftir í íslenska hagkerfinu. Það þýðir að stóriðjan skilar okkur nettó 75–80 milljörðum í gjaldeyri. Samt tala menn hér á árinu 2015 eins og ekkert hafi breyst og það sé sjálfsagt mál að ýta til hliðar algerlega íslenskri náttúru og hagsmunum ferðaþjónustunnar eins og hún sé aukaatriði þegar veruleikinn er sá að hún skilar meira né þrisvar sinnum meiri gjaldeyri nettó en álið.

Eru menn komnir inn í nútímann, (Forseti hringir.) herra forseti, sem enn haga málflutningi sínum svona?