144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

störf þingsins.

[16:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar horft er á þau átök sem nú eru í samfélaginu um skiptingu þjóðarauðsins er eðlilegt að menn spyrji: Hvers vegna erum við komin í þessa stöðu? Ég vil rekja nokkra þætti sem hafa haft lykiláhrif af hálfu ríkisstjórnarinnar í að skapa óróa og ósætti í samfélaginu, og aukið misrétti í skattamálum með því að fólk undir 250 þús. kr. hefur ekkert fengið út úr skattbreytingum ríkisstjórnarinnar nema skattahækkanir í formi matarskatts, og þeir best stæðu hafa notið ívilnana með margvíslegum hætti.

Við sjáum líka að 25% heimila sem eru með verðtryggðan húsnæðiskostnað hafa ekki fengið krónu út úr skuldamillifærslunni miklu. Fjórða hvert heimili, sem þó hefur verðtryggðan húsnæðiskostnað, leigjendur eða íbúar í búseturéttaríbúðum hafa ekki fengið krónu þó að hinir hafi fengið peninga úr ríkissjóði. Auðvitað veldur þetta óánægju og missætti í samfélaginu. Lækkun auðlindagjalda, þar sem augljóst er líka núna með makrílfrumvarpinu að ásetningur ríkisstjórnarinnar er að gefa sumum ávinninginn af sameiginlegum auðlindum okkar.

Það er hægt að grípa til aðgerða og ríkisstjórnin getur gripið til aðgerða. Vaxtabætur þarf að endurskoða. Þær eru núna einn þriðji af því sem þær voru mestar í tíð síðustu ríkisstjórnar. Fjárfesta þarf í leiguíbúðum, gera leigjendur jafn setta þeim sem eru í eignaríbúðum og ráðast þarf í stórátak í uppbyggingu á félagslegu húsnæði. Fyrir liggja ítarlegar tillögur um allt þetta, ítarlegar tillögur Alþýðusambandsins um átak í uppbyggingu félagslegs húsnæðis og það er bara verkleysi ríkisstjórnarinnar sem kemur í veg fyrir að eitthvað sé gert í þessum málum.

Að síðustu: Við þurfum nauðsynlegar aðgerðir í skattamálum sem nýtast lágtekjufólki og lífeyrisþegum. Þeir hafa setið eftir í öllum skattbreytingum ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili og bara borið auknar byrðar (Forseti hringir.) með hækkun matarskatts.