144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

störf þingsins.

[16:17]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrr í umræðunni var sagt að unga fólkið og framtíðin hér á landi skiptu gríðarlega miklu máli og það tengt við rammaáætlun og vernd og nýtingu orkuauðlinda. Þetta væri rétt ef við værum að tala um vernd, ekki síður en nýtingu, vegna þess að unga fólkið ætlast ekki til þess að öllum auðlindum sé ráðstafað núna á meðan það er ungt. Það vill eiga möguleika á því að lifa í landi þar sem hægt er að virkja síðar á lífsævi þess.

Hv. þm. Ásmundur Friðriksson gerir sér ekki grein fyrir því að einmitt núna, síðastliðið ár og á þessu ári, er landflótti Íslendinga frá Íslandi. Það fóru 760 íslenskir ríkisborgarar af landi brott umfram þá sem komu til landsins á síðasta ári. Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs eru það 370 Íslendingar. Þetta hefur stóraukist aftur eftir fyrsta áfallið eftir hrunið. Á sama tíma og við ræðum framtíð unga fólksins á Íslandi, sem skiptir gríðarlega miklu máli, er hér verið að tæta í sundur málaflokk sem hefur ávallt verið samstaða um í meginatriðum, sem eru menntamálin. Og það er gert án þess að við fáum nokkra möguleika á að ræða það á hv. Alþingi, án þess að við getum fengið svör frá hæstv. ráðherra. Á visir.is í dag er fyrirsögnin, með leyfi forseta: „Illugi svarar ekki fjölmiðlum en minnir á mikilvægi þeirra“, og er hann þá á fundum einhvers staðar í útlöndum.

Á sama tíma hefur hann ekki svarað erindum frá þeim sem hér stendur og er í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, hvorki um sameiningu skóla, háskóla í Norðvesturkjördæmi, né varðandi lánasjóðinn þar sem tölvupóstum fæst ekki svarað, þar sem gengið er harkalega fram í innheimtu og annað. Það eru átök í framhaldsskólum vegna þess að það er niðurskurður þar, það er verið að segja upp ræstingarfólki á Akranesi, búið að fækka kennurum, allt vegna þess að það er niðurskurður frá þessari ríkisstjórn á skólana. (Forseti hringir.) Það er verið að leggja niður Iðnskólann í Hafnarfirði, það er verið að sameina skóla. Við höfum ekki hugmynd um hvar eða hvernig á að gera það, við fáum engar upplýsingar um það. (Forseti hringir.) Það getur aldrei gengið í íslensku samfélagi nútímans að við fáum ekki pólitíska stefnumótandi umræðu inn á Alþingi.