144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

störf þingsins.

[16:22]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Þegar horft er yfir sviðið er það mér mjög augljóst að núverandi ríkisstjórn var ekki undir það búin að taka við völdum þegar hún tók við eftir kosningar árið 2013. Nú er það auðvitað þannig að þegar fólk tekur við nýjum störfum er ekki hægt að búast við því að það stökkvi fullskapað inn í þau. Það þarf ákveðinn tíma til að tileinka sér það sem í starfinu felst, til að geta sinnt því með ágætum. Það má því alveg gera ráð fyrir ákveðnum aðlögunartími eða einhverju slíku. Í tilfelli þeirra starfa sem ég þekki til í fjölmiðlum eru það yfirleitt þrír til sex mánuðir og að þeim liðnum býst maður við að nýr starfskraftur geti spjarað sig á borð við þá sem fyrir eru.

Ég ímynda mér að það að verða ráðherra eða forsætisráðherra sé eitthvað sem menn megi jafnvel búast við að taki sex mánuði eða ár að ná sæmilegum tökum á, en mér finnst eins og núverandi ríkisstjórn hafi einfaldlega ekki náð neinum tökum á verkefni sínu eftir tveggja ára setu við völd. Mér finnst öll stóru málin sem ríkisstjórnin ætlaði að beita sér fyrir eða er með í vinnslu vera strand einhvers staðar annars staðar en í þinginu og það blasir við til dæmis í þeirri nefnd sem ég starfa í innan þingsins. Þangað koma mál úr mismunandi ráðuneytum þar sem augljóst er að ekkert samráð eða samtal hefur átt sér stað á milli ólíkra ráðuneyta. Það er engin samhæfð verkstjórn í gangi innan ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er sorglegt að horfa upp á þá stöðu sem nú er uppi, það er fyrst og síðast óundirbúin ríkisstjórn sem kemur hingað til valda og hefur ekki náð tökum á verkefni sínu. (Forseti hringir.) Svo ég nefni eitt dæmi máli mínu til stuðnings hefur náttúrupassinn verið dæmdur úr leik eftir tveggja ára þrotlausa vinnu eins ráðherra, hún var öll til einskis.