144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

um fundarstjórn.

[16:28]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína að undir liðnum um störf þingsins tóku tveir framsóknarmenn til máls. Þeir hafa oft verið töluvert fleiri undir þeim lið og verið með ágætar hugleiðingar um lífið og tilveruna. Núna töluðu tveir þingmenn, hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir og hv. þm. Willum Þór Þórsson, og bæði komu sér algjörlega undan því að tala um hitamál dagsins í dag og dagsins í gær og kom ekki fram í máli þeirra hver afstaða þeirra væri til umhverfisráðherra Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar eða til afstöðu hæstv. ráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar um sama mál.

Í húsinu eru eftirfarandi framsóknarmenn: Hv. þingmenn Haraldur Einarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Frosti Sigurjónsson og Vigdís Hauksdóttir, sem er að fylgjast með klukkunni, og hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra Sigrún Magnúsdóttir sem og hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. (Forseti hringir.) Það væri áhugavert að heyra í því fólki, hvaða afstöðu það hefur til þess stjórnmálamanns sem þetta fólk hefur treyst fyrir málefnum umhverfisins og náttúrunnar á Íslandi.