144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

umræðuefni dagsins.

[16:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en tekið undir með síðasta hv. þingmanni. Það væri fengur að því að fá dr. Sigmund Davíð Gunnlaugsson, skipulagshagfræðing og hæstv. forsætisráðherra, til að koma hingað og fara yfir sín faglegu sjónarmið um þessi virkjunaráform. Hér kom fram ágætistillaga um fundarstjórn forseta fyrr í dag sem var sú að gera hlé á fundi þessum eða ljúka honum einfaldlega núna einmitt klukkan hálffimm þegar hér hefur fólk safnast saman fyrir utan húsið sem vill koma á framfæri skilaboðum og sjónarmiðum til þingmanna um það mál sem hefur verið troðið á dagskrána. Það væri kannski þarfara fyrir okkur þingmenn að fara út og ræða við fólk um þetta efni. Auk þess er helgur dagur á morgun, uppstigningardagur, og kannski eðlilegt að þessum degi fari að ljúka í þinghaldinu sem staðið hefur með nefndafundum frá því árla í morgun. Ég hvet forseta til að eyða ekki lengri tíma í þessa vitleysu (Forseti hringir.) heldur binda enda á þessi fundarhöld hér í dag og reyna að nota morgundaginn til að ná einhverju viti í dagskrána á föstudaginn.