144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

umræðuefni dagsins.

[16:47]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég skil þetta með bjölluhljóminn vel eftir að hafa hlustað töluvert á þingið heima fyrir framan sjónvarpið.

Hæstv. forseta Einari Kristni Guðfinnssyni hefur orðið tíðrætt um störf þingsins og hvernig þau eiga að fara fram og að hann vilji sjá virðingu þingsins aukast. Hann veit að það gerist ekki með þessum dagskrárlið og því tel ég þetta afleita fundarstjórn og ástæðu til að koma í pontu og ræða það.

Við störfum fyrir almenning í landinu. Úti á Austurvelli er hluti þessa almennings sem okkur ber að hlusta á eins og hverja aðra. Þessi hluti almennings meðal margra annarra berst fyrir náttúruna í landinu. Náttúran getur ekki svarað fyrir sig og hún er líka yfir okkur hafin. Hún er eilíf, við erum það ekki. Það er mjög mikilvægt að við stöndum vörð, tökum þetta mál út af dagskrá og komum í veg fyrir að þingmenn eyðileggingar sem ég tel ráða hér för (Forseti hringir.) fái sitt fram.