144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

umræðuefni dagsins.

[16:54]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það er bara spurning um að gera þetta faglega. Ég hef talað við marga þingmenn, bæði í stjórnarliðinu og minni hlutanum, og mönnum ber ekki saman um margt í þessu. Stjórnarþingmönnum finnst að verkefnisstjórnin hafi verið að tefja málið og svo heyrir maður annars staðar: Já, en það var dregið úr fjárframlögum til verkefnisstjórnarinnar þannig að hún gat ekki sinnt starfinu almennilega o.s.frv. Það sem skiptir lykilmáli er að finna einhverja sameiginleg sátt um þetta mál þannig að það sé hægt að vera með langtímastefnumótun í þessum mikilvæga málaflokki.

Ég er ekki búinn að móta mér skoðun á þessum virkjunarkostum. Ég hef ekki hugmynd um þá. Það er ekki forgangsatriði fyrir mig að gera það. Það sem aftur á móti skiptir máli er að það sé gert í faglegu ferli af þeim aðilum sem finnst þetta skipta miklu máli og að þeir fái að koma að borðinu. Þetta er ákvörðun sem varðar alla landsmenn. Það er það sem skiptir máli. Það er ekki verið að gera það núna. Núna er vaðið með þetta inn í lagalega óvissu þannig að Alþingi er mögulega að samþykkja þingsályktunartillögu, a.m.k. samkvæmt umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, (Forseti hringir.) um að ráðherra skuli brjóta lög. Hvað á að gera með það? Haldið þið að það verði ekki kært? Að sjálfsögðu. Að sjálfsögðu verður þetta kært. Þá fer þetta allt í dómsalina. Hvað (Forseti hringir.) situr þetta lengi þar? Þá verða bara virkjunarmálin í dómsölum. Hvers konar (Forseti hringir.) skilaboð sendir það út í heim um þau vinnubrögð sem við erum með á Íslandi? Hvað (Forseti hringir.) kostar það?