144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:27]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Frammíkallið er ræðuform sem hv. þm. Jón Gunnarsson hefur náð ágætis tökum á. Hann kallaði hér fram í að þetta væri sambærilegt því sem gerðist á síðasta kjörtímabili. Það er auðvitað af og frá, það er langt í frá.

Það sem gerðist þegar menn samþykktu á endanum röðun virkjunarkosta var að náttúruverndarsinnar eins og ég og fleiri hér í salnum urðu að samþykkja fjöldann allan af virkjunarkostum í nýtingarflokki sem okkur var þvert um geð að samþykkja, til dæmis mjög marga virkjunarkosti á Reykjanesinu sem við afgreiddum með sérstakri bókun en samykktum engu að síður. Það er auðvitað vegna þess að maður hafði trú á því verkfæri sem hér var á ferðinni. Maður hafði líka trú á því að verið væri að setja í verndarflokk mjög mörg mikilvæg svæði sem væri þá búið að koma í skjól.

Ég ítreka það sem ég sagði í ræðu minni að mér finnst vera stórkostlegur munur á því að taka virkjunarkosti úr biðflokki og setja í nýtingu eða að taka þá úr nýtingarflokki og setja í bið, vegna þess að fyrri ákvörðunin er endanleg. Virkjun er endanleg, það verður ekki tekið aftur, en bið þýðir að menn ætla að skoða hlutina betur.

Ég vil líka nefna að fyrr í dag, í umræðum um störf þingsins, sagði hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson að hann væri andvígur því að setja raflínu yfir Sprengisand. En það er útilokað að virkja í Skrokköldu án þess að þar komi mikil raflínumannvirki. Hvernig ætla menn að leysa það? Ætla menn að vera með niðurgrafna línu af miðhálendinu til byggða? Það er greinilegt að menn átta sig bara engan veginn á því hvað er hér á ferðinni og hafa ekki lagt niður fyrir sér hvað það þýðir í raun og veru sem verið er að gera. Skrokkalda þýðir að menn eru komnir með mannvirki og (Forseti hringir.) nýja virkjun ofan í Vatnajökulsþjóðgarði á miðhálendi Íslands.