144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:47]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það stingur óneitanlega svolítið í augu þegar hv. þm. Róbert Marshall var að flytja ræðu sína að hér voru fyrst og fremst fulltrúar stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Ásmundur Friðriksson gekk í salinn undir lok ræðunnar. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans hafi hreinlega gefist upp á því að sitja undir umræðunni, hvort þetta hafi orðið þeim um megn. Þeir byrjuðu að kvarta yfir því strax á fyrsta hálftímanum í gær að nú væri málþófið hafið og við höfum fáar ræður fengið úr röðum þeirra enn þá, þótt einhverjir þeirra séu á mælendaskrá. Svo virðist sem hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans hafi gefist upp á því að veita svör. Það segir sitt um það hvernig þetta mál er búið og hversu gríðarlega vanbúið það er að menn leggja ekki einu sinni í umræðuna lengur, það er bara búið að gefast upp, þeir virðast (Forseti hringir.) ekki ætla að taka þátt.