144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:51]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Auðvitað er þetta stórmerkilegt. Hv. þm. Róbert Marshall fór ágætlega yfir það í ræðu sinni um hvað þetta snýst. Það á að taka ákvarðanir um að virkja á stöðum sem eru náttúruperlur. Það er óafturkræft ef það er virkjað þarna. Ætla þeir sem vilja standa að þeim ákvörðunum á þennan hátt að láta minnast sín þannig að þeir hafi ekki einu sinni verið í þingsal og fært rök fyrir máli sínu þegar þeir reyndu að þjösna þessu í gegn? Það er mjög merkilegt. Mér finnst þetta mál þessi eðlis, nógu mikið er nú deilt um lögmætið, að það ætti í öllu falli að vera sjálfsagt að við höldum ekki fund um það nema þeir sem standa fyrir þessum málatilbúnaði séu á staðnum, (Forseti hringir.) og að þeir taki líka þátt í rökræðunni um úrskurð forseta, sem fer fram undir liðnum um fundarstjórn forseta, (Forseti hringir.) mjög umdeilanlegan úrskurð sem vekur upp margar spurningar.