144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Fyrst hv. ríkisstjórn og fótgönguliðar hennar hafa kosið að setja þetta mál á dagskrá þá verða þeir að fylgja þeirri ákvörðun sinni eftir og sitja undir þeirri umræðu sem fer hér fram, annað er ekki ásættanlegt, hvort sem það eru þingflokksformenn, hæstv. umhverfisráðherra og jafnvel fleiri ráðherrar, þetta snertir líka fleiri málaflokka en málaflokk umhverfisráðherra. Það væri ágætt að fá fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra hingað í salinn.

Þunginn í mótmælum fólks sem mótmæltu þessum ólýðræðislegu vinnubrögðum hér úti á Austurvelli fyrr í dag var mjög mikill og ákall á okkur þingmenn að standa í lappirnar og berjast fyrir því að menn fremdu ekki þennan gjörning, að eyðileggja náttúru landsins og fara flýtileið með þann gjörning.