144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:54]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Eins og við þingmenn þekkjum þá getum við setið á skrifstofum okkar bæði hér í þinghúsinu og annars staðar við Austurvöll og fylgst með, en í svona stóru máli þá geri ég kröfu á það að þessir þingmenn sem hér hafa talað um mikilvægi þess að vera við umræðuna séu ekki bara hér í þingsal, heldur er afskaplega mikilvægt að þeir taki þátt í umræðunni með því að koma t.d. í andsvör við okkur, bæði til þess að styrkja sína eigin skoðun og stuðning við málið og fá fram önnur sjónarmið.

Ég hefði kallað eftir því líka að hv. þingmaður og formaður atvinnuveganefndar, Höskuldur Þór Þórhallsson, væri hér, því þetta mál átti jú (Gripið fram í: Umhverfisnefndar.) að fara til umhverfisnefndar, fyrirgefið, hún átti náttúrlega að taka þetta mál í fangið en ekki atvinnuveganefnd á sínum tíma eins og við ræddum og deildum mikið um þegar málið kom fyrst fram. Hann á að vera talsmaður náttúrunnar hér á þingi fyrir hönd þeirrar (Forseti hringir.) nefndar sem hann er í forsvari fyrir. Því væri eðlilegt að hann sæti hér í sal og tæki þátt í umræðunni.