144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:16]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að taka hér undir með öðrum þingmönnum og óska eftir því að hið andlega leiðarljós ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli, hv. þm. Jón Gunnarsson, sé viðstaddur umræðuna og taki þátt í henni.

Ég vil líka svara því sem hv. þm. Páll Jóhann Pálsson sagði áðan um að hann og stjórnarmeirihlutinn mættu sitja undir dylgjum um að hafa brotið gegn réttu ferli í þessu máli. Það eru engar dylgjur, hv. þingmaður, það eru beinar ásakanir. Það er algjörlega skýrt sett fram af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni, efnisleg rök fyrir því að stjórnarmeirihlutinn hefur ekki farið að réttum lögum í málinu. Hann hefur brotið gegn gildandi lögum um meðferð þessa mikilvæga málaflokks og hann hefur virt að vettugi þá ferla sem átt hefði að fara eftir. Því til staðfestingar liggur fyrir álit ráðuneytisins í málinu. Hv. þingmaður verður að fara að átta sig á því að hér er ekki um neinar dylgjur að ræða. Alls engar dylgjur. Við komum (Forseti hringir.) algjörlega hreint fram í þessu máli. Við setjum fram ítarlegar ásakanir um það að verið sé að brjóta lög. (Forseti hringir.) Fyrir því eru efnisleg rök.