144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þegar maður er kominn langt inn í eitthvert verkefni eða búinn að fara eftir einhverju kerfi eða reglusetti í ákveðinn tíma þá er þess virði að spyrja sig á ákveðnum tímapunkti, með hliðsjón af reynslunni, hvort maður mundi setja á það sama regluverk eða kerfi ef maður væri að byrja upp á nýtt. Ástæðan fyrir því að ég brydda upp á þessu er sú að verklagið hér á Alþingi gagnvart málaflokkum sem þessum sýnir aftur og aftur fram á að hið háa Alþingi er þess ekki megnugt að meðhöndla mál af þessu tagi með lýðræðislegum hætti. Það er þess vegna sem ég hef áður orðað það þannig og orða það þannig aftur að þegar kemur að svona umdeildum málum — þingið stöðvast vegna ósættis, stöðvast þegar sögulegar kjaradeilur eru í gangi og enn fleiri yfirvofandi, þegar fyrir liggja fullt af málefnum sem við ættum að vera að eyða tíma í en getum ekki vegna þess að við erum föst í þessu — þá er það vandamál, virðulegi forseti.

Mig langar að spyrja virðulegan forseta hvernig hann sjái fyrir sér að við finnum til framtíðar lausn á þessu alvarlega vandamáli.