144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:22]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Vandamálið við það sem við erum að ræða hér er að við erum að fjalla um þingsályktunartillögu. Hún er ekki tekin nema tvisvar sinnum fyrir, þ.e. það eru tvær umræður í þinginu og við erum komin í síðari umræðu. Þá er lögð fram tillaga sem er með algjörlega nýjum hugmyndum og ætlast er til að við ræðum hana nánast án þess að eiga möguleika á því að eiga mikinn orðastað við þá sem þó standa að baki henni, vegna þess að þeir taka gjarnan ekkert þátt í umræðunni. Þetta er talið sem fagleg umræða í þinginu. Ég held að menn geti nú ekki sætt sig við það.

Mig langar að benda hæstv. forseta og fulltrúum úr atvinnuveganefnd á að skoða upprunalegu tillöguna. Það er tillaga um einn virkjunarkost. Hæstv. ráðherra sem er í núverandi ríkisstjórn, hann er að vísu núna sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, var þá líka umhverfisráðherra, flytur þessa tillögu og rökstyður það mjög vel að hann geti ekki flutt tillögu um nema einn virkjunarkost vegna þess að verkefnisstjórnin er ekki (Forseti hringir.) búin að afgreiða meira. Hv. þingmenn eru að snupra sinn eigin ráðherra ítrekað. (Forseti hringir.) Það eru engin efnisleg rök (Forseti hringir.) fyrir því.