144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins í upphafi að fara yfir það hvernig mér finnast vinnubrögðin vera í þessu máli. Ég verð að segja það alveg eins og er að það er ekkert sem kemur til greina, sem ástæða fyrir því að menn ákveða að demba þessu máli hér á dagskrá, vitandi hvaða áhrif það mun hafa á störf þingsins, annað en það að menn séu að breiða yfir fullkomið getuleysi sitt í því að reyna að ná sáttum á vinnumarkaði, í því að reyna að ná tökum á því ástandi og í því að svara ákalli fólks, sem er í tugþúsundavís í verkföllum eða á leiðinni í verkföll, um bætt lífskjör. Þessari ríkisstjórn er fyrirmunað að svara því kalli.

Þessi ríkisstjórn er búin að lofa öllu fögru. Það átti að afnema verðtryggingu sisona rétt eftir hádegið eftir kosningar. Nú tveimur árum seinna eru þingmenn Framsóknarflokksins farnir að standa hér í ræðustól með gjörninga til að reyna að vekja athygli á því máli, reyna að ná áheyrn forustu flokksins. Það er í þeirri stöðu sem þetta mál er sett á dagskrá til að breiða yfir ruglið, til að breiða yfir getuleysið, til að breiða yfir dugleysið. Það er þess vegna sem við stöndum hér.

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að gunguskapurinn í málinu nær algjörlega nýjum hæðum — eða eigum við segja lægðum — þegar menn taka ákvörðun um að horfast ekki einu sinni í augu við fólk með það og koma fram með þessar tillögur um viðbótarvirkjanir í sérstöku þingmáli. Hvað er það annað en gunguskapur? Þetta eru risastórar ákvarðanir, fela í sér að menn ætla að eyðileggja verkferlið sem heitir rammaáætlun, menn ætla að ráðast hér í fjórar virkjanir með tilheyrandi áhrifum og telja að það sé fullkomlega eðlilegt að vippa því inn sem breytingartillögu við annað mál hér í þinginu. Þetta er bara eitt stórt grín. Og þetta er líka — ég leyfi mér að kalla það það — einhver sá mesti gunguskapur sem ég hef orðið vitni að. Menn leggja ekki í að koma með málið sjálfstætt inn í þingið, þess vegna fara þeir svona að. Það er nú öll karlmennskan — af því að hér var rætt um hana — sem hægt er að finna hjá þessum þingmeirihluta.

Virðulegi forseti. Það er að mínu mati algjörlega ljóst að þetta mál mun hafa mjög miklar afleiðingar. Það mun hafa þær afleiðingar að verið er að henda þeim verkferlum sem hafa verið í 18 ár í vinnslu í tengslum við rammaáætlun, verkferlum sem voru síðan lögfestir hér á síðasta kjörtímabili með lagasetningu með öllum greiddum atkvæðum í sátt. Það er verið að taka ákvörðun um að henda þeim frá. Og menn ákveða ekki að gera það með því beinlínis að afnema lögin eða breyta löggjöfinni. Nei, menn ákveða að gera það með þessum teprulega hætti, koma hingað inn með fjórar nýjar virkjanir sem breytingartillögu. Og hvað gerist svo? Virðulegur forseti kemur hér með úrskurð sem á eftir að vera þinginu til háðungar um langa, ókomna tíð þar sem því er haldið fram að þetta sé ekki meiri háttar breyting á þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram af ráðherra. Auðvitað er það það. Þetta er stórkostleg breyting á þeirri þingsályktunartillögu sem kom hér inn.

Það sýnir sig best í því að ráðherra umhverfis- og auðlindamála, sem var á undan þeim sem nú situr, hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson — það vita allir hans persónulegu skoðanir á virkjunarmálum í neðri hluta Þjórsár til dæmis En hvað gerir hann þegar hann kemur inn með þetta mál? Hann ákveður að fylgja verkferlunum, hann ákveður að virða ferlið. Hann ákveður að koma eingöngu inn með þá niðurstöðu sem verkefnisstjórnin var tilbúin á þeim tímapunkti að afgreiða. Og megi hann hafa þökk fyrir það. Það kom skýrt fram þegar fyrstu hugmyndir um að fara gegn þessu ferli komu fram í atvinnuveganefnd fyrir jól, af hans hálfu, að hann væri ósammála því. Hann sagði það mjög skýrt. Þá ákvað nefndin að bíða eftir því að skipaður yrði annar ráðherra umhverfismála. Nú er sá ráðherra kominn og þá láta menn til skarar skríða að nýju og koma með málið inn í þingið.

Virðulegi forseti. Það sem gerðist síðan hér í gær er eitthvað það ótrúlegasta sem ég hef orðið vitni að. Þegar hæstv. ráðherra er búinn að lýsa því yfir í sjónvarpsviðtali að hún hefði frekar viljað að menn héldu sig við þessa upphaflegu tillögu og leyfðu verkefnisstjórninni að klára sína vinnu þá kemur hv. þm. Jón Gunnarsson hingað upp og talar til hennar eins og vera hennar hér í þinginu skipti engu máli. Hann segir beinlínis að þeir sem skipti máli hér í þinginu muni samþykkja þessa breytingartillögu. Þetta er nú öll fegurðin í boðskapnum hjá þeim sem fylgja þessu máli úr hlaði. Ef menn eru ekki sammála þeim þá skipta þeir ekki máli, þá er það fólk sem má bara taka út af sakramentinu.

Varð einhver hér til þess að verja hæstv. ráðherra? Nei, hún stóð ein í þessu, sat ein undir þessu í þingsal í gær. Ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins, virðulegi forseti. Þetta var ljót aðför að ráðherra. En það þýðir ekki að ég sé sammála því sem hún sagði í ræðu sinni í gær, ég er það alls ekki. Mér þykir það líka undarleg afstaða ráðherra að segja að hún hefði heldur kosið að menn færu eftir upphaflegum tillögum verkefnisstjórnarinnar, en segja síðan: Þar sem þessi tillaga er komin fram þá geri ég nú ráð fyrir því að ég muni kjósa með tillögunum í neðri hluta Þjórsár en ekki Skrokköldu og ekki Hagavatni — ja, fyrst búið er að bera á borð, hlaðborð, ætla ég bara að fá mér bita. Þar með er ráðherrann algjörlega ósamkvæm sjálfri sér í því að virða eigi þessa verkferla og virða niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar og gefa henni ráðrúm til að vinna. Það er hrópandi mótsögn í þessum málflutningi og þetta opinberar það og birtir líka skýrt hversu ófaglega staðið er að málinu. Smekksatriði eru farin að ráða för. Pólitískir duttlungar og smekkur einstakra þingmanna er farinn að ráða því hvar er virkjað og hvar ekki í þessu landi.

Það var ekki auðvelt verkefni að ýta þessari rammaáætlun úr vör eftir að lögin voru samþykkt á síðasta þingi, alls ekki og þvert á móti. Það var gríðarlega erfitt verkefni. Hvers vegna var það erfitt verkefni? Það var erfitt verkefni vegna þess að mjög margir voru með skoðun á því hvar einstaka kostir ættu að lenda í flokkuninni og höfðu að mörgu leyti fyrir því málefnalegar ástæður og sumar tilfinningalegar líka, af því að við erum auðvitað að tala um náttúru Íslands sem við tengjumst öll með mismunandi hætti. En ákveðið var að láta hið faglega ferli ráða og menn sættu sig við niðurstöðuna á endanum þó að erfið væri.

Virðulegi forseti. Það er um það sem þetta snýst. Það þurfa allir að gefa eitthvað eftir þegar menn búa til verkfæri til að reyna að ná málamiðlun og niðurstöðu sem sátt getur verið um. Við vitum að við munum þurfa að virkja. Við munum þurfa að nýta náttúruna. En þá skulum við líka vera með leikreglur um það eins og þær sem kveðið er á um í lögum um rammaáætlun. Annars er það þannig — og það er þess vegna sem ég segi líka að menn viti ekki hvaða eftirmála þetta uppnám hér mun hafa í för með sér — að þegar deilur eru um einstaka virkjunarkosti aftur og aftur þá tefja þær fyrir friðlýsingum, þær tefja fyrir framkvæmdum og þær skapa óvissu til langrar framtíðar.

Orkugeirinn þarf á stöðugleika og framtíðarsýn að halda. Hann þarf að geta gert langtímaáætlanir. Getur hann það þegar pólitískir duttlungar ráða för? Getur hann það þegar ríkisstjórn er við völd sem ákveður að henda öllum verkferlum sem eiga að skapa þá langtímasýn? Nei, hann getur það ekki. Hann gat það í fyrra, hann getur það ekki núna. Það er búið að taka ákvörðun um það í sérhagsmunaskyni, í þeim tilgangi að slá pólitískar keilur, að setja orkugeirann og hans langtímasýn í uppnám. Hér er engum greiði gerður, engum. Það er líka búið, af þessari ríkisstjórn, að taka ákvörðun um að virða að vettugi friðlýsingarflokkinn eða verndarflokkinn. Það var gert strax í upphafi. Og nú er verið að slátra nýtingarflokknum líka.

Virðulegi forseti. Ég get ekki orða bundist yfir því á hvaða hátt menn fara hér fram. Auðvitað er okkur heitt í hamsi, vegna þess að þrotlaus vinna er að baki þeirri niðurstöðu sem náðist, þrotlaus vinna og hunderfið. Sú sem hér stendur lenti oft í því að spjótin beindust að henni í því verkefni og það var ekki þannig að maður væri í sátt við umhverfisverndarsamtök eða orkufyrirtækin í öllu því ferli. En þá þurfti maður að standa með ferlinu sjálfu af því að þannig er þessi málaflokkur. Hann er viðkvæmur, hann er umdeildur. Þess vegna þurfum við verkferla sem við stöndum við.

Virðulegi forseti. Hér hefur ýmislegt verið sagt og því verið haldið fram að fráfarandi ríkisstjórn hafi gengið fram með tuddaskap. Það var sagt af hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni en hann hefur æ oftar sýnt það í þessari umræðu að hann mætti lesa söguna betur um það hvernig þetta fór fram. Hann mætti líka kynna sér lögin örlítið betur, lögin um rammaáætlun. Í lögum um rammaáætlun, sem samþykkt voru 2011, var skýrt kveðið á um það að þar sem fram undan væri fyrsta þingsályktunartillagan eða framlagning hennar væri sett inn bráðabirgðaákvæði sem fjallaði sérstaklega um það hvernig undanfari þeirrar fyrstu þingsályktunartillögu skyldi vera. Og hvað sagði þar? Þar sagði að þegar flokkun lægi fyrir — og það voru formenn faghópa og formaður verkefnisstjórnar sem flokkuðu á grundvelli röðunar verkefnisstjórnar rammaáætlunar — bæri ráðherra að leggja málið inn í opið umsagnarferli í tólf vikur. Að því loknu og að athugasemdum fengnum yrði gengið frá þingsályktunartillögu sem síðan yrði send til þingsins.

Þegar því tólf vikna lögbundna ferli var lokið fengu þó nokkrir virkjunarkostir athugasemdir en á þriðja hundrað athugasemda bárust í þessu opna ferli. Þegar því var lokið og athugasemdir lágu fyrir var tekin ákvörðun um það, af þeirri sem hér stendur og hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur og fleirum, að við vildum ekki setja pólitísk fingraför á ákvörðunartöku um það hvernig farið yrði með þessar umsagnir. Þess vegna var ákvörðun tekin um að þeir kostir sem fengu mestar athugasemdir skyldu endurmetnir af verkefnisstjórninni, með þessum athugasemdum, og þess vegna voru þessir kostir færðir í biðflokk.

Ef röksemdir og aðferðafræði núverandi stjórnarmeirihluta hefðu ráðið för hefðum við hæglega getað skutlað þessu í verndarflokk eins og okkur hefði hentað, af því að okkur fannst það ágætt og við hefðum getað fært ágætisrök fyrir því. Það hefðu margir í okkar flokkum orðið mjög glaðir með það, mjög margir. En við gerðum það ekki af því að við vildum ekki láta pólitískar skoðanir ráða för heldur faglega matið sem við höfðum samþykkt í lögum að skyldi fara fram.

Þetta er grundvallarmunur á því sem verið er að gera hér og því sem gert var þá, grundvallarmunur. Það er ekkert faglegt við það sem verið er að gera hér nema menn kalli það faglega niðurstöðu að eyðileggja rammaáætlun. Hv. þingmenn sem sitja í atvinnuveganefnd — ég ætla að fullyrða að þeir séu ekki til þess bærir að taka faglegar ákvarðanir um það hvar skuli virkja og hvar ekki. Hér ráða pólitískir duttlungar för og það er þess vegna sem við stöndum hér og berjumst fyrir því að verja rammaáætlunarferlið. Það er það sem vakir fyrir okkur. Það skiptir gríðarlega miklu máli þegar við umgöngumst náttúru Íslands að við tökum ákvarðanir byggðar á faglegum forsendum en ekki bara á smekk einstakra manna. Það er það sem er hér í gangi. Menn ætla að fara að taka ákvarðanir eftir smekk. Við heyrðum það hjá hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni. Hann sá þetta ekki fyrir sér sem neitt stórkostlegt. Það var hans smekkur og hans skoðun, allt í lagi, hann má hafa sína skoðun fyrir mér. En í öllum almáttugsbænum ekki fara að byggja ákvarðanir í þinginu, og kalla það faglegt mat, á skoðunum og smekk.

Virðulegi forseti. Við þurfum að ná saman um að þetta mál verði stoppað í þinginu og að menn endurskoði hug sinn hvað það varðar að fara svona fram. Það er það sem við erum að biðja um. Við erum ekki að biðja um neitt annað en að menn endurskoði hug sinn, taki undir með okkur og hæstv. umhverfisráðherra, núverandi og fráfarandi, í því að verkefnisstjórnin eigi að fá frið til þess að klára sína vinnu.

Virðulegi forseti. Í góðu nefndaráliti frá hv. þm. Kristjáni L. Möller, frá 1. minni hluta atvinnuveganefndar, eru ágætlega dregin fram sjónarmið sem koma fram í áliti skrifstofu iðnaðar- og orkumála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og síðan aftur frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Þar kemur skýrt fram og er vel rökstutt hvers vegna þessi ráðuneyti telja að hér sé gengið of langt, að hér sé verið að fara á svig við lögin um rammaáætlun. Það er vel rökstutt og ég vil hvetja hv. þingmenn sem hér eru inni til að lesa þessi álit, kynna sér þau. Þetta er ekki bara eitthvert tal súrra vinstri manna hér í þinginu, að þetta sé sniðganga við lögin. Þetta er líka álit atvinnuvegaráðuneytisins, þetta er líka álit umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Samband íslenskra sveitarfélaga segir í umsögn sinni að með tilliti til þeirra sjónarmiða sem þeir færa fram þar mæli þeir ekki með því að meiri hluti Alþingis samþykki tilfærslu virkjunarkosta, sem verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar hefur ekki tekið afstöðu til, úr biðflokki í nýtingarflokk. Samband íslenskra sveitarfélaga er á móti þessari aðgerð.

Á hvern hlustar stjórnarmeirihlutinn hér? Hvað er það sem ræður för? Og á meðan gerist ekkert, hvorki til verndunar né nýtingar, á meðan á þessum sirkus stendur, ekki neitt

Við getum öll án efa sett fram óskalista um það hvernig við viljum að farið sé með auðlindir þjóðarinnar. En það er ekki verkefni okkar hér á Alþingi. Verkefni okkar hér á Alþingi er að búa til gagnsæja verkferla, verkferla sem fólk getur treyst á, sem menn geta byggt áætlanir á og verkferla sem láta náttúruna njóta vafans. Hér er verið að taka meðvitaða ákvörðun um að sprengja þá verkferla í loft upp og láta viðhorfið „ég á það, ég má það“ ráða för. Það verða eftirmæli þessarar ríkisstjórnar og ekki bara í þessu máli heldur í svo mörgum öðrum.