144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún fór yfir forsögu málsins, þ.e. samþykkt þingsins á síðasta kjörtímabili, þannig að ég ætla ekki að nýta mína mínútu til að spyrja hana út í það.

Það sem ég velti hins vegar fyrir mér og hv. þingmaður ræddi einnig var staða hæstv. umhverfisráðherra í þessu máli, en hæstv. umhverfisráðherra hefur lýst því hér yfir að hún styðji ekki breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar. Hv. formaður atvinnuveganefndar hefur gert lítið úr því og sagt að það skipti ekki máli hvað einstökum ráðherrum finnist. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé birtingarmynd ágreinings stjórnarflokkanna, sem virðist raunar vera á fleiri sviðum og dálítið undarlegt hvað hann er í raun á mörgum sviðum. Við vitum til dæmis að þingsályktunartillaga hæstv. forsætisráðherra um nýtt þinghús er föst í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Er Framsóknarflokkurinn að verða undir í þessu stjórnarsamstarfi? Er það það sem við erum að horfa upp á hér í ólíkustu málum, (Forseti hringir.) að ráðherrar Framsóknarflokksins eru sendir til baka (Forseti hringir.) af Sjálfstæðisflokknum?