144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:46]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ágætisupptalning hjá hv. þingmanni en hún gleymdi tveimur mjög stórum málum, sem eru húsnæðismálin. Þetta er því ekki aðeins á þessu sviði og mann grunar helst að eftir að farið var hér í gegn með 80 milljarðana í leiðréttingu á skuldum heimilanna líti sjálfstæðismenn svo á að þeir eigi marga feita greiða inni hjá Framsóknarflokknum og nú sé komið að þeim. Ég held að óháð öllum hinum málunum sé að minnsta kosti í þessu máli verið að valta yfir Framsóknarflokkinn, það er bara þannig. Við heyrðum það í gær og við sáum það í gær, virðingarleysið var fullkomið. Ég veit ekki hvort það beinist einungis að þessum ráðherra eða flokknum öllum, ég get ekki svarað því, því verður hv. þm. Jón Gunnarsson að svara. Mér fannst virðingarleysið hér slíkt að það er langt síðan ég hef orðið vitni að öðru eins og það sem ég undrast er að enginn skyldi hafa komið ráðherranum til varnar.