144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:47]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það eru nefnilega fleiri dæmi. Við skulum ekki heldur gleyma hækkuninni á matarskattinum sem hv. þingmenn Framsóknarflokksins gerðu fyrirvara við en voru svo fljótir að éta hann, smátt og smátt, og enduðu í því að í staðinn fyrir að hækka um 12% var hækkað um 11. Maður fékk það á tilfinninguna að skuldaleiðréttingin hafi verið ansi dýru verði keypt þegar hæstv. forsætisráðherra lagði til að staðsetning nýs Landspítala yrði endurskoðuð og hæstv. fjármálaráðherra kom og sagði: Hann má hafa sína skoðun á því. Það er ekki ósvipuð afgreiðsla og hæstv. umhverfisráðherra fékk í gær hjá hv. formanni atvinnuveganefndar. Mér sýnist ástarsamband þessara tveggja flokka komið á svolítið skrýtinn stað þegar annar aðilinn þarf stöðugt að vera að éta ofan í sig allt sem hann segir og leggur til og það er gert hér í beinni útsendingu.

Væri ég framsóknarmaður mundi ég að minnsta kosti (Forseti hringir.) fara að hugsa stöðu mína í því ástarsambandi.