144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:49]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Ég held að ef við hv. þingmaður héldum svona áfram í andsvörum fram eftir degi kæmu alltaf fleiri og fleiri mál upp. Ég var líka að rifja upp verðtrygginguna og afnám hennar. Það er algjörlega búið að svæfa það mál. Það er týnt í skúffu í fjármálaráðuneytinu, þrátt fyrir yfirlýsingar þingmanna Framsóknarflokksins hér um mikilvægi þess að þetta verði gert og hversu auðvelt það sé og eingöngu þurfi viljann til. Við getum án efa talið upp mörg mál.

Það sem allt þetta leiðir okkur að, sem er líka ástæða þess að ríkisstjórnin hefur misst svona mikla tiltrú, er að það ríkir algjört stefnuleysi og það virðist ekki vera neitt utanumhald um það sem er að gerast. Það er bara einhver að gera eitthvað og svo bregðast menn við því. Þannig er ekki hægt að stjórna landi. Það er ekki hægt. Það endar úti í skurði og við erum á hraðri leið þangað í allt of mörgum málum, út af fullkomnu stjórnleysi ríkisstjórnarinnar og stefnuleysi. Menn geta ekki haldið áfram að takast á við eitt og eitt mál í einu, menn verða að sýna okkur hvert þeir stefna, sýna okkur stóru myndina.