144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:50]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég var reyndar búinn að heyra mest af henni undir liðnum um fundarstjórn forseta. En henni er tíðrætt um faglegt mat og að við þurfum að standa með ferlinu. Fólki hefur líka verið tíðrætt um atvinnuástandið og það ástand sem er úti í samfélaginu, verkföll og annað eins. Hv. þingmaður talar svolítið um umsagnir. Þeim var breytt í síðasta ferli. Það vill svo til að ég er hérna með umsögn frá ASÍ, þetta hafa kannski verið svolítið kaldar kveðjur, ef ég má lesa aðeins úr henni:

„Sjálfbær nýting auðlinda landsins er þjóðhagslega mikilvæg og er grunnur að samfélagslegri velferð og bættum lífsskilyrðum landsmanna sem verkalýðshreyfingin berst fyrir. […] Gögn þriggja virkjunarkosta, þ.e. Hvammsvirkjunar, Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar, sem nú er lagt til að fari í biðflokk fengu fullt hús stiga hjá (Forseti hringir.) öllum faghópunum. Þau rök sem færð eru fyrir tilflutningi þessara virkjunarkosta (Forseti hringir.) úr nýtingarflokki í biðflokk eru því (Forseti hringir.) ótrúverðug og ekki byggð á faglegum vinnubrögðum.“

Hvað segir hv. þingmaður um þetta?