144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:54]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Ég vona að hv. þingmaður lesi jafn vel umsagnir ASÍ um aðgerðir þessarar ríkisstjórnar hvað varðar svikin þegar kemur að vinnumarkaðnum. Ég vona að hv. þingmaður geri það.

Virðulegi forseti. Það var aldrei beðið um eitthvert nýtt mat á einu eða neinu. Hér á Alþingi voru samþykkt lög um rammaáætlun þar sem var bráðabirgðaákvæði sem sagði nákvæmlega til um í hvaða ferli málið skyldi fara í fyrstu umferð, það var þetta umsagnarferli. Þetta ferli var samþykkt hér með öllum greiddum atkvæðum, meira að segja líka framsóknarmanna og sjálfstæðismanna sem núna vilja ekki kannast við nokkurn skapaðan hlut af því það hentar þeim ekki pólitískt. (PJP: Faglegt mat …) Það hentar þeim ekki pólitískt. Það var aldrei beðið um neina nýja umsögn frá verkefnisstjórninni fyrr en að á þriðja hundrað umsagnir og ábendingar um virkjunarkostina sem lágu undir voru komnar fram. Þá báðum við verkefnisstjórnina, hinn faglega aðila, að meta þær umsagnir. (Gripið fram í.) Þannig (Forseti hringir.) tókum við pólitísk fingraför út úr málinu, virðulegi forseti.