144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:55]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þm. Páll Jóhann Pálsson sé kominn með eitthvað efnislegt til að ræða í andsvörum við hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur. Því hefur ekki verið til að dreifa í umræðunni þangað til núna. Það er ánægjulegt að sjá að hv. þingmaður er með eina af þeim fjölmörgu umsögnum sem birtust með þessu máli, sem gengur að vísu svolítið gegn samsæriskenningu samflokksmanns hv. þingmanns, Vigdísar Hauksdóttur, sem heldur því fram að ASÍ og launþegahreyfingin hafi öll verið í einhverju samkrulli með ríkisstjórninni á síðasta kjörtímabili um að fara ekki í verkfall.

Mig langar að spyrja hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, sem flutti mjög fína ræðu og kom m.a. inn á úrskurð forseta, út í orðalagið í niðurstöðu hæstv. forseta, vegna þess að forseti kemst ekki að þeirri niðurstöðu að málið sé þingtækt, að hann sé þess fullviss að málið sé þingtækt, hann orðar það ekki þannig að það sé öruggt, hann orðar það þannig að honum sýnist það frekar. Kannast hv. þingmaður, sem hefur verið hérna lengur en ég, við jafn (Forseti hringir.) veikt orðalag í nokkrum úrskurði eða áliti forseta þingsins og í þessu?