144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins að koma inn á álit eða greinargerð verkefnisstjórnar rammaáætlunar frá því síðastliðið vor. Þar kemur fram varðandi samfélagsáhrifin að þau séu ekki tekin með í þeirri breytu. Verkefnisstjórn tekur undir að ekki sé nógu gott að þau hafi ekki vægi í málinu þegar verið sé að vega og meta hvað fari í vernd og hvað í nýtingu. Verkefnisstjórnin bendir á að við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sé eðlilegt að lagt sé nánara mat á samfélagsáhrif og að samfélagið sé hluti af því ferli. Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart því að það sé tekið inn í endurskoðun á hinu faglega ferli að vigta samfélagsáhrifin betur inn í það allt.