144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[10:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er kannski ómaklegt að kalla þetta fundarstjórn forseta því að iðulega nota þingmenn þennan lið fremur til þess að kvarta undan verkstjórn forsætisráðherra en beinlínis fundarstjórn forseta. Nú ber vel í veiði þegar hæstv. forsætisráðherra ómakar sig loksins til þingfundar. Ástæða er til að spyrja hvort eigi að eyða enn einum mikilvægum þingdegi í þann vitleysisgang sem verkstjórinn hefur sett hér á dagskrá í vikunni og hvort forsætisráðherra hafi engar þarfari hugmyndir um verkefni fyrir þingið en þetta fánýta þras um ótímabærar virkjunarhugmyndir, hvort það séu engar tillögur um kjör heimilanna, lífskjörin í landinu, það að létta sköttum af láglaunafólki og lífeyrisþegum, taka á vandanum í húsnæðismálum eða önnur þarfaverk sem kallað er eftir hvarvetna í samfélaginu eða hvort það sé bara engin verkstjórn í landinu yfir höfuð. Þess vegna hljótum við að kalla eftir því þegar þessi vitleysa er sett í gang hér enn einn daginn að hæstv. forsætisráðherra svari því (Forseti hringir.) hvort hann sé algjörlega tómhentur um þörf mál (Forseti hringir.) og þess vegna sé ekki um annað að ræða en þessa vitleysu.