144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[10:38]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Um leið og við, nokkrir þingmenn, kvöddum okkur hljóðs í upphafi þingfundar fór hæstv. forsætisráðherra fram. Það er engu líkara en það séu orðin skilyrt viðbrögð af hálfu hæstv. forsætisráðherra að um leið og einhver kveðji sér hljóðs hérna til að láta í ljós mótmæli eða ósætti (Gripið fram í.)eða skoðanir sem ekki eru hæstv. forsætisráðherra þóknanlegar þá fari ráðherrann fram. Hann er kominn aftur — velkominn!

Ég kem hingað upp til þess að mótmæla dagskránni. Ég nota þennan lið um fundarstjórn forseta til þess. Ég held að forseta hljóti að vera orðið ljóst núna þegar þriðji dagurinn fer í það að ræða þetta mál að það er verulegt ósætti um það. Við erum verulega ósátt við breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar og tvö ráðuneyti telja hana lögleysu. Ég held að við séum óviljugir þátttakendur í leikriti. Það er einfaldlega ekkert annað sem bíður. (Forseti hringir.) Ef þetta mál væri ekki á dagskrá, hvað væri þá á dagskrá? Er bara verið að reyna að halda þinginu gangandi? Það væri þá heiðarlegt að hæstv. forseti segði (Forseti hringir.) það bara.