144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[10:48]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það hefur ítrekað komið fram hér við umræðu um rammaáætlun hversu víðtæk vanþekking liggur til grundvallar tillögu meiri hlutans. Mig langar að spyrja forseta hvort það liggi alveg fyrir í meiri hlutanum að tillagan um Hagavatnsvirkjun snýst um 20 megavött. Til samanburðar skilar Hellisheiðarvirkjun 300 megavöttum. 20 megavött eru þess virði að fara í þennan slag í þinginu og setja allt á hliðina. Vís maður sagði mér það á Austurvelli í fyrradag að 20 megavött skiluðu 12 störfum í álveri. Þá eru nú aldeilis komin af stað hjól atvinnulífsins og framtíðin blasir við í hugskoti þeirra sem tala hér ítrekað um orkuleysi í samfélaginu en endurspegla ítrekað sitt pólitíska orkuleysi.