144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[10:55]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Undir þessum lið, fundarstjórn forseta, erum við sannarlega að ræða fundarstjórn hæstv. forseta, en það gengur lítið, það gengur bara ekki neitt. Ég skil það eiginlega ekki. Ég hef áður krafið forseta um svör en hann þegir þunnu hljóði. Ég skil ekki af hverju forseti setur þessa meingölluðu breytingartillögu frá meiri hluta atvinnuveganefndar í forgang. Af hverju eru ekki önnur mál mikilvægari? Af hverju skiptir ekki máli að hér sé allt þjóðfélagið farið á hliðina út af kjaradeilum og verkföllum? Skiptir það engu máli? „It's on you“, það er bara þannig. Við bíðum öll í þessum sal eftir því að fá að gera eitthvað í málunum en við fáum það ekki, við höfum ekki leyfi til þess af því að forseti er með dagskrárvaldið, bara svo það sé alveg á hreinu.