144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[10:58]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Þegar þingi lýkur á hverjum degi birtist fljótlega dagskrá næsta dags. Undanfarna daga hefur maður kíkt í eftirvæntingu, hvort menn sjái nú ekki að sér og taki út mál sem eru í bullandi ágreiningi þar sem einhverra hluta vegna er beitt valdi til þess að koma fram með tillögur sem eru efasemdir um að standist lög eða reglur. Því miður hefur það valdið vonbrigðum ítrekað að dagskránni er ekki breytt. Maður veltir fyrir sér hvers vegna. Hæstv. forseti skuldar okkur að segja okkur það. Er það skipun frá ríkisstjórninni að gera þetta með þessum hætti eða er það einlægur vilji hæstv. forseta að hafa þetta mál sem forgangsmál? Og þá af hverju?

Það eru auðvitað væntingar um að við séum að ræða lausnir, eins og kom fram hjá hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni, ekki lausnir á þessu máli heldur lausnir á kjaradeilum, skattbreytingum sem hugsanlega geta liðkað fyrir og (Forseti hringir.) á húsnæðismálum þar sem beðið er eftir frumvörpum. (Forseti hringir.) Eru menn kannski að tefja málin (Forseti hringir.) til þess að ríkisstjórnin geti komið með einhverjar tillögur þegar fer að líða á sumarið?