144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[11:03]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson sagði okkur vera að væla hér um daginn, fyrr í vikunni. Hv. þm. Páll Jóhann Pálsson kemur hér upp og kallar þetta kvartkór.

Virðulegi forseti. Það sem við erum að tala um er einfaldlega það að við höfum áhyggjur af því hvert stefnir í samfélaginu þegar tugir þúsunda manna eru búnir að vera í verkföllum svo vikum skiptir. Nú stefnir í að hátt í 100 þús. Íslendingar verði í verkföllum. Það má kalla það kvartkór að hafa áhyggjur af stöðu heilbrigðiskerfisins við þessar aðstæður. Það má kalla það kvartkór og væl að hafa áhyggjur af því að millilandaflug fari að leggjast af.

Virðulegi forseti. Þeir sem svona tala eru veruleikafirrtir, enda hafa báðir þessir þingmenn komið hér upp og sagt það hreinskilnislega að þeir standi eingöngu fyrir það að verja ákveðin hagsmunaöfl í samfélaginu og þeir hafa þar með ekki áhyggjur af þessari stöðu, en það höfum við, (Forseti hringir.) og ekki kalla það kvartkór eða væl, virðulegi forseti.