144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[11:06]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek eftir því að þingmenn í meiri hlutanum virðast ekki allir gera sér grein fyrir hvers eðlis þingsköpin eru. Það er þannig í eðlilegu lýðræðisríki að minni hluti hefur einhverjar varnir til þess að meiri hlutinn geti ekki valtað yfir hann með hvaða vitleysu sem er. Í þingsköpum er eina ráð okkar að reyna í þessum stól að koma meiri hlutanum fyrir sjónir að það verklag sem þau vilja hafa hér gengur ekki hér. Það er ekki verklagið sem þarf til þess að ná niðurstöðu í svona stóru hagsmunamáli sem varðar íslenska náttúru, óafturkræfanlegar skemmdir á íslenskri náttúru. Þannig málum verður ekki lokið nema að fólk setjist niður og tali saman af alvöru. Þangað til það gerist verðum við hér í þessum ræðustól.