144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

breytingar á skattkerfinu.

[11:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eins og okkur hefur orðið tíðrætt um höfum við öll áhyggjur af vinnudeilum, og ekki nema eðlilegt, bæði hvað varðar verkföll BHM en líka verkfallsaðgerðir annarra samtaka. Eitt af því sem hefur heyrst frá stjórnvöldum, hæstv. fjármálaráðherra, er að verið sé að undirbúa breytingar á skattkerfinu sem hann telur að eigi að leiða til betra samfélags, væntanlega, og greiðari lausna á vinnudeilum, þ.e. að fækka þrepum í skattkerfinu. Mér kemur á óvart að þetta eigi að greiða fyrir lausn á vinnudeilum í ljósi þess að einfalt og flatt skattkerfi hefur verið afgreitt af mörgum alþjóðastofnunum, nú síðast OECD, sem fyrirbæri sem beinlínis auki ójöfnuð en ekki jöfnuð. OECD hefur bent á að nota megi skattkerfið til að auka jöfnuð og hvetur aðildarríki sín beinlínis til að fara í skattbreytingar og taka upp þrepaskipt skattkerfi þar sem það hefur ekki verið gert því að brauðmolakenningunni, þ.e. að hafa flatan skatt á alla þannig að ríkir og fátækir borgi jafnt hlutfall og svo græði hinir fátæku einhvern veginn á velgengni hinna ríku, hefur verið hafnað. Hún hefur verið lýst andvana.

Því kemur mér á óvart að ríkisstjórn Íslands lýsi yfir í ljósi allra þeirra gagna sem liggja fyrir að ætlunin sé að fækka þrepum í skattkerfinu, ætlunin sé að fara aftur til baka í flatt skattkerfi. Ríkisstjórnin er auðvitað þegar búin að leggja sitt af mörkum í því með því að afnema auðlegðarskatt. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra, formann Framsóknarflokksins, sem stundum hefur verið þekktur fyrir að reyna að standa vörð um velferðina í samstarfi sínu við Sjálfstæðisflokkinn, hvort það geti verið stefna ríkisstjórnarinnar að fara þvert gegn ráðum allra alþjóðastofnana um að hverfa frá hinu þrepaskipta skattkerfi, aðgerð sem mun leiða til aukins ójafnaðar og samkvæmt þeim rannsóknum og gögnum sem liggja fyrir hafa slævandi (Forseti hringir.) áhrif á vöxt og velsæld. Það kemur líka fram hjá OECD að í samfélagi þar sem jöfnuður er mestur er líka vöxturinn og velsældin mest.