144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

breytingar á skattkerfinu.

[11:19]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að fá tækifæri til að fara aðeins yfir þetta mál því að það virðist vera einhver misskilningur á ferðinni hvað það varðar. Í fyrsta lagi vil ég þó lýsa yfir ánægju með að hv. þingmaður vísi í OECD hvað þessi mál varðar. Það má taka undir það sem hv. þingmaður bendir á, jöfnuður er til þess fallinn að tryggja almenna velsæld. OECD bendir einmitt á að jöfnuður sé óvíða og kannski hvergi meiri en á Íslandi nú um stundir og hafi aukist undanfarin ár. Það er áfram unnið að því að auka jöfnuð og þær skattkerfisbreytingar sem hafa verið til skoðunar sem einn af þeim þáttum sem menn hafa verið tilbúnir að skoða í tengslum við kjarasamninga snúa ekki að því að fletja út skattkerfið og hafa eitt skattþrep. Í raun eru þær frekar til þess fallnar að viðhalda óendanlega mörgum skattþrepum, ef svo má segja, vegna áhrifa persónuafsláttar. Án þess að ég ætli að fara nákvæmlega út í hvað menn hafa verið að skoða þar, því að það hlýtur að velta líka á því hvernig málin þróast hjá aðilum vinnumarkaðarins, hafa þær hugmyndir allar miðað að því að ýta enn undir jöfnuð í samfélaginu sem, eins og ég gat um áðan, hefur verið að aukast. Jöfnuður hefur verið að aukast, það hefur dregið úr misskiptingu frá því að þessi ríkisstjórn tók við og þær skattkerfisbreytingar sem verið er að skoða yrðu til þess fallnar að auka enn jöfnuð á Íslandi og minnka tekjubilið enn frá því sem nú er orðið.