144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

breytingar á skattkerfinu.

[11:23]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þessi misskilningur virðist vera þrautseigur þótt ég hafi reynt að leiðrétta hann. (Gripið fram í.) Hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki talað fyrir breytingum á skattkerfinu sem eru til þess fallnar að auka misskiptingu, þvert á móti (Gripið fram í.) hefur áherslan verið á það halda áfram að … (Gripið fram í.)(Forseti hringir.) Þvert á móti hefur hæstv. fjármálaráðherra eins og aðrir ráðherrar talað fyrir breytingum sem eru til þess fallnar að festa í sessi, tryggja enn og auka enn þann jöfnuð sem hefur náðst í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Af því að hv. þingmaður tekur upp á því að rifja upp stefnu síðustu ríkisstjórnar í skattamálum er rétt að hafa í huga að mesta breytingin hvað aukinn jöfnuð varðar varð með falli fjármálakerfisins þegar fjöldinn allur af hálaunastörfum þurrkaðist út. Hins vegar hafa breytingar núverandi ríkisstjórnar á skatt- og gjaldakerfum verið til þess fallnar að rétta sérstaklega hlut tekjulægri hópa, ekki hvað síst fjögurra tekjulægstu tíundanna. (Forseti hringir.) Það hefur skilað sér í því eins og OECD bendir á, fyrst menn eru tilbúnir að trúa þeim, að jöfnuður er óvíða meiri en á Íslandi. (Gripið fram í.)