144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

breytingartillaga við rammaáætlun.

[11:24]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá hæstv. forsætisráðherra að mikið ósætti ríkir hér í þinginu og nú er að hefjast þriðji dagurinn þar sem okkur er uppálagt að ræða mjög umdeilda breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar við tillögu hæstv. umhverfisráðherra um að Hvammsvirkjun verði færð í nýtingarflokk. Hér á sem sagt að færa fjóra virkjunarkosti í nýtingarflokk algjörlega fram hjá vinnu verkefnisstjórnar um rammaáætlun og það er sett hér sem bara svona tillaga milli umræðna um þingsályktunartillögu.

Við erum allnokkur hér í þinginu sem sættum okkur ekki við þessa málsmeðferð og teljum, eins og lögfræðingar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og atvinnvegaráðuneytisins, að það sé ekki í samræmi við lög að virkjanir séu færðar svona í nýtingarflokk með breytingartillögum milli umræðna. Mig langar hins vegar að eiga orðastað í fyrri hluta fyrirspurnar minnar við hæstv. forsætisráðherra um það hvort þessi málatilbúnaður, þessi breytingartillaga meiri hluta atvinnuveganefndar, endurspegli forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Erum við að ræða þetta mál vegna þess að því hefur verið komið á framfæri við hæstv. forseta af hálfu ríkisstjórnarinnar að þetta sé forgangsmál hennar? Er það þess vegna sem málið er hér á dagskrá? Eða er dagskráin algjörlega sett fram á ábyrgð og að frumkvæði hæstv. forseta? Ef við erum að ræða þetta vegna þess að það er forgangsmál ríkisstjórnarinnar þá vil ég gjarnan að það komi fram og ég mundi vilja heyra rökstuðninginn fyrir því.

Hæstv. umhverfisráðherra hefur sagt að henni líki ekki breytingartillaga meiri hluta atvinnuveganefndar og hún vilji að verkefnisstjórnin fái frið til að klára sína vinnu, með öðrum orðum að hún styðji ekki þessa breytingartillögu. Styður hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) þessa breytingartillögu eða styður hæstv. forsætisráðherra ráðherra sinn?