144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

breytingartillaga við rammaáætlun.

[11:26]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Af því að spurt er um forgangsröðun þá er það að sjálfsögðu í forgangi hjá þessari ríkisstjórn að bæta lífskjör í landinu og það verður ekki gert nema með aukinni verðmætasköpun. Og þar hefur strandað á orkuframleiðslu ekki hvað síst.

Af því að hér er talað mikið um faglegheit þá hefur verkefnisstjórn í öðrum áfanga fjallað um virkjunarkostina þrjá í Þjórsá, Skrokköldu og Hagavatn. (Gripið fram í.) Eins og bent var á hér áðan hefur Alþýðusambandið (Gripið fram í.) ítrekað beint því til þingsins að fylgja faglegri umfjöllun um rammaáætlun með því að setja þá virkjunarkosti (Gripið fram í.) sem upp voru taldir í nýtingarflokk. (Gripið fram í.) — Virðulegur forseti. (Forseti hringir.) Er hægt að svara hér fyrirspurnum án þess að stöðugt sé verið að æpa hér og láta öllum illum látum? — Hins vegar hefur virkjunarkosturinn í Hagavatni verið settur í biðflokk til þessa í þeirri vinnu sem unnin hefur verið, þó að margt bendi til þess að það sé einstaklega umhverfisvænn kostur, enda má minna á það að þar er eingöngu verið að færa Hagavatn aftur til fyrri stærðar og hefta þar með stórskaðlegan uppblástur (Gripið fram í.) sem myndaðist eftir að vatnið minnkaði. En engu að síður, virðulegur forseti, til að leiða fram sem mesta mögulega sátt hefur hæstv. umhverfisráðherra gert samkomulag við meiri hluta atvinnuveganefndar um að draga til baka tillögu um að setja Hagavatn í nýtingarflokk að sinni, svoleiðis að menn geta haldið áfram að velta þeim kosti fyrir sér í ró og næði og vonandi séð að það er til bóta fyrir umhverfið (Gripið fram í.) að ráðast í virkjun á þeim stað og ná aftur til baka gamla Hagavatni og hefta þar með (Gripið fram í.) stórskaðlegan uppblástur sem hefur staðið í allt of marga áratugi. (Gripið fram í: Hvers lags vinnubrögð eru þetta, forseti?)