144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

samráð um þingstörfin.

[11:37]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég skil síðari spurningu hv. þingmanns þannig að þingmaðurinn hafi algjörlega skipt um skoðun frá því í fyrri spurningu. Ég vil engu að síður ítreka það að það er sjálfsagt mál og ekkert nema eðlilegt eins og hefð er fyrir þegar líður að lokum þingstarfa að menn setjist yfir skipulag mála. Hins vegar komumst við ekkert nær lokum þingstarfa eins og málum er háttað hér í dag og undanfarna daga þar sem stjórnarandstaðan eyðir öllum tíma þingsins í umræðu um fundarstjórn forseta sem er auðvitað gróf misnotkun á þeim lið. Menn eru meira að segja orðnir svo blindir á hvað þeir eru að gera að þeir eru farnir að kalla eftir mönnum í þingsal til að taka þátt í umræðu um fundarstjórn forseta.

Virðulegur forseti. (Gripið fram í.) Á meðan þetta ástand er uppi komumst við ekkert nær því að ljúka þingstörfum og þá þurfum við bara að fara að búa okkur undir það að vera hér næstu vikurnar og mánuðina [Kliður í þingsal.] og þegar við sjáum til lands (Gripið fram í.) þá að vanda munum við halda … (Forseti hringir.) Voðalega er þetta allt viðkvæmt, virðulegur forseti, enda hlýtur það að vera óþægilegt fyrir þetta ágæta fólk, hv. þingmenn, að heyra það og átta sig á því, eins og hefur runnið upp (Forseti hringir.) mjög glögglega nú, að allur þessi æsingur undanfarna daga, það var ekkert á bak við hann.