144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

ummæli forsætisráðherra um rammaáætlun.

[11:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í svari við fyrirspurn áðan greindi hæstv. forsætisráðherra frá því að hér væri verið að víla og díla, eins og menn segja á góðri íslensku, í bakherbergjum um mál sem er á dagskrá í dag, rammaáætlun. Hæstv. forsætisráðherra virðist ekki gera sér grein fyrir því að við erum hér í síðari umr. um þingsályktunartillögu, sem þýðir að þetta er lokaumræða um málið, þegar hann segir við okkur að hann sé tilbúinn að tala við okkur þegar umræðu er lokið. Hæstv. forsætisráðherra virðist ekki gera sér grein fyrir því hvar málið er statt nema hann sé að gera grín að okkur eða þekki ekki þingsköpin.

Ég geri ráð fyrir því að hér hljóti að verða gert eitthvert hlé á fundinum til að gera hæstv. forsætisráðherra grein fyrir stöðu málsins í þinginu og því að það er ekki hægt að ræða við stjórnarandstöðuna hér þegar umræðu um þetta mál er lokið að fullu sem það verður þegar þessari síðari umr. lýkur.

Þess vegna, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, skiptir okkur svo miklu máli (Forseti hringir.) að á okkur sé hlustað núna (Forseti hringir.) en ekki þegar málið er farið af dagskrá.