144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

ummæli forsætisráðherra um rammaáætlun.

[11:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég geri ekki athugasemd við það að forseti taki 2. málið á dagskrá á eftir og geri ráð fyrir að það geti verið góð samstaða um það í þinginu eins og fjölmörg mál þegar vel er að þeim staðið. En hafi verið ástæða fyrir okkur til að koma í pontu undir liðnum um fundarstjórn forseta undanfarna daga er hálfu meiri ástæða til þess í dag. Við sögðum að málið væri vanbúið og algerlega óljóst á hvaða forsendum það væri flutt. Það sannaði sig auðvitað þegar hæstv. forsætisráðherra gekk í ræðustólinn í morgun og tilkynnti að ráðherra í ríkisstjórninni hefði samið við meiri hluta atvinnuveganefndar um að einhver allt önnur tillaga væri til umfjöllunar hér síðar í dag en fyrir liggur í þinginu. Þá hljóta þingmenn að spyrja hver staða þeirra sé, hver staða málsins og staða meiri hluta atvinnuveganefndar eða umhverfisráðherra til að semja við hana um einhvern tiltekinn málatilbúnað.

Virðulegur forseti. Ég er satt að segja í lok þessarar viku alveg hættur að átta mig á því hvar þetta mál (Forseti hringir.) stendur.