144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

ummæli forsætisráðherra um rammaáætlun.

[11:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra, sem er ekki með okkur lengur, lagði til hérna áðan að við mundum hleypa málum á dagskrá. Ég tek undir það með hæstv. forsætisráðherra, við eigum að hleypa málum á dagskrá sem þingið er í stakk búið til að ræða. Það er mjög greinilega ekki í stakk búið til að ræða þetta mál vegna þess að það er enginn áhugi á að ræða það á meðan fullt af öðrum málum þarf umræðu hér, fyrir utan einfaldlega tíma þingmanna sem er af skornum skammti, andstætt því sem margir virðast trúa.

Svo segir hæstv. ráðherra að andstaðan þori ekki í rökræðuna. Gott ef það var ekki í sömu ræðu, a.m.k. mjög nálægri ræðu, sem hann talaði um eitthvert samkomulag sem enginn í stjórnarandstöðunni hefur heyrt um, um það hvernig eigi að breyta breytingartillögunni. Hvað eigum við að rökræða hérna? Eigum við að koma í pontu og góðfúslega biðja hann, segja: Plís, hæstv. forsætisráðherra, ertu plís til í að hlusta aðeins á okkur? Gerðu það!

Hvað eigum við að gera? (Forseti hringir.) Hvaða farsi er (Forseti hringir.) þetta, virðulegi forseti?