144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

ummæli forsætisráðherra um rammaáætlun.

[12:03]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér var rætt um form, hér hefur verið rætt um framkvæmdarvald og hér hefur verið rætt um hver aðkoma þingsins eigi að vera. Hér virðist hafa átt sér stað samkomulag milli framkvæmdarvaldsins, miðað við það sem hæstv. forsætisráðherra tilkynnti áðan, við — ja, ég veit ekki hvort það er formaður atvinnuveganefndar eða aðrir þingmenn sem þar eru í meiri hluta og eru á þessari tillögu, en það er að minnsta kosti augljóst að framkvæmdarvaldið hefur haft eitthvað um það að segja hvað á að reyna að leggja fram. Ég segi eins og fleiri: Ef hæstv. forseti hefur vitað af þessu átti hann að boða til fundar með þingflokksformönnum strax í morgun. Þetta á ekki að koma fram með þeim hætti sem hér er gert.

Ég leyfi mér að segja, virðulegi forseti, að ég tel fulla þörf á því, og ég er ekki að tala niður til fólks, (Forseti hringir.) að það verði lesstund í umhverfisráðuneytinu með þeim þingmönnum sem komu nýir inn á þing og virðast ekki vita út á hvað rammaáætlun gengur.