144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

ummæli forsætisráðherra um rammaáætlun.

[12:07]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Fyrst ætla ég að koma með ábendingu til forseta frá fjöldamörgum hlustendum Alþingisrásarinnar um að bjölluhljómurinn fer mjög illa í eyru hlustenda. Ég bið forseta að taka tillit til þess.

Við erum á þingi þar sem meiri hlutinn ræður, ekki satt, hæstv. forseti? Það eru í það minnsta þau skilaboð sem við höfum fengið. Ég verð að segja að það er ekki af neinni sérstakri ánægju eða gleði sem ég tek þátt hér í að reyna að koma einhverju skikki á fundarstjórn forseta. Við erum í því sem ég kallaði gjarnan á síðasta kjörtímabili leikhús fáránleika meiri hlutans. Það er mér engin gleði. Ég vil ítreka að það þarf að setja á samráðsfund á milli formanna flokkanna til að fara yfir það hvernig við ætlum að haga þingstörfunum. Það er óboðlegt, forseti, að hæstv. forsætisráðherra komi hér fram og hóti því að það verði ekki neinir fundir á milli formannanna ef við verðum ekki við kröfu hans um að við hættum að beita okkur fyrir því að mál sem er óþingtækt sé tekið af dagskrá.